Frá vettvangi við Hafravatnsveg.
30 Apríl 2019 09:01

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í jafnmörgum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. apríl.

Mánudaginn 22. apríl kl. 9.14 hjólaði hjólreiðamaður á leið austur Nesveg á hurð bifreiðar ökumannsmegin eftir að hún hafði verið stöðvuð sunnan vegarins með akstursstefnu til austurs. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 23. apríl. Kl. 10.03 var bifreið ekið í afrein Vesturlandsvegar að Bæjarhálsi, út fyrir veg og á ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 10:50 varð árekstur með bifreið, sem var ekið út af bifreiðastæði við Vatnagarða 12, og bifreið, sem var ekið austur Vatnagarða. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.12 var bifreið ekið út af Hafravatnsvegi við Úlfarfellsveg þar sem hún stöðvaðist á grjóti. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 24. apríl kl. 15.48 varð stúlka, sem hafði komið út úr kyrrstæðum strætisvagni á biðstöð við Úlfarsbraut til vesturs og gengið út á akbrautina aftan við vagninn, fyrir bifreið, sem var ekið vestur götuna og áleiðis framúr honum. Stúlkan var flutt á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 27. apríl. Kl. 9.37 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg og utan í vegrið gegnt Hamraborg þar sem hún snerist og valt eina veltu áður en hún stöðvaðist utan vegar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild. Kl. 11.42 var bifreið ekið vestur Norðurströnd, yfir á rangan vegarhelming og á ljósastaur við Sefgarða. Ökumaðurinn, sem hafði „dottið“ út við aksturinn, var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.28 varð aftanákeyrsla á Sæbraut til suðurs á móts við Dugguvog. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Hafravatnsveg.