21 Maí 2019 16:52
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. maí.
Sunnudaginn 12. maí kl. 13.39 var bifreið ekið austur Hringbraut og á umferðarljósavita við gatnamót Bræðraborgarstígs. Ökumaðurinn, sem mun hafa fengið aðsvif áður en óhappið varð, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 14. maí. Kl. 12.27 varð árekstur með bifreið, sem var ekið inn á Vatnagarða frá bifreiðastæði við hús nr. 26 og beygt áleiðis vestur götuna, og bifreið, sem var ekið vestur Vatnagarða. Við áreksturinn kastaðist fyrrnefnda bifreiðin á kyrrstæða bifreið á Vatnagörðum til austurs, skammt vestan útkeyrslunnar. Ökumaður var fluttur á slysadeild, auk þess sem annar ætlaði að leita sér læknisaðstoðar í framhaldinu. Og kl. 23.13 var bifreið ekið af Flugvallavegi inn á Nauthólsveg til vesturs þegar vaggandi gæs birtist skyndilega á veginum. Við það beygði ökumaðurinn undan, á steyptan stólpa við vegbrúnina vegna framkvæmda. Hann var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 15. maí kl. 6.25 var bifreið ekið austur Fífuhvammsveg, ofan í poll gegnt Smáralind og velt í gegnum strætisvagnsskýli við götuna. Ökumaðurinn, sem er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna, var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 17. maí. Kl. 13.30 var strætisvagni ekið út af Álafossvegi sunnan húss nr. 10. Ökumaðurinn, sem virðist hafa fengið aðsvif, var, auk þriggja farþega, fluttur á slysadeild. Kl. 17.48 var drengur á hlaupahjóli á leið norður gangstétt við Melabraut fyrir bifreið, sem var ekið aftur bak úr heimkeyrslu. Drengurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.09 varð aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut við Stöng á austurleið. Farþegi í aftursæti fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.