Frá vettvangi á Bæjarhálsi.
3 Júní 2019 16:14

Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. maí – 1. júní.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 26. maí. Kl. 14.22 var bifreið ekið suður Sogaveg. Á sama tíma hjólaði stúlka niður og austur Austurgerði og lenti á framhorni bifreiðarinnar. Hún var flutt á slysadeild. Kl. 17.14 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Bæjarháls og beygt áleiðis suður Hraunbæ, og bifreið, sem var ekið austur Bæjarháls. Ökumaður og tveir farþegar í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Kl. 18.44 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Vesturberg og beygt áleiðis vestur Vesturhóla, og bifreið, sem var ekið suður Vesturberg. Ökumaður og farþegi í fyrrnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.06 var bifreið ekið aftan á aðra á Höfðabakkabrú til vesturs. Ökumaður aftari bifreiðarinnar, sem grunaður er að hafa verið undir áhrifum fíkniefna, auk þess sem hann viðurkenndi að hafa verið að skutla farþegum í bifreiðinni gegn gjaldi, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 27. maí. Kl. 7.37 lenti hjólreiðamaður, á leið eftir gangstíg sunnan Holtavegar, á ljósastaur við stíginn. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.18 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli sínu á göngustíg við Lindarveg. Hann var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 28. maí kl. 15.45 varð ökumaður rafskutlu á leið til vesturs á gangbraut yfir Strandgötu, gegnt húsi nr. 75, fyrir bifreið, sem var ekið suður Strandgötu. Ökumaður skutlunnar var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 29. maí. Kl. 10.04 var bifreið ekið suður Kringlumýrarbraut og aftan á bifreið við afrein að Suðurhlíð. Við áreksturinn snerist fremri bifreiðin og lenti á hlið bifreiðar, sem í því var ekið inn á afreinina. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 20.41 féll ökumaður bifhjóls af hjóli sínu á Bústaðavegi á norðurleið gegnt Háuhlíð. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 22 féll ökumaður bifhjóls af hjóli sínu á Höfðabakka, við gatnamót Höfðabakkabrúar og Ártúnsbrekku. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 31. maí kl. 23.39 varð árekstur með bifreið, sem var ekið norður Vesturlandsveg og í ytri hring hringtorgs við Langatanga, og bifhjóli, sem var ekið um innri hring þess með fyrirhugaða akstursstefnu áfram norður Vesturlandsveg. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 1. júní kl. 13.45 varð gangandi vegfarandi, á leið yfir Álfheima vestan Langholtsvegar, fyrir bifreið, sem var ekið suður Langholtsveg og beygt vestur Álfheima. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi á Bæjarhálsi.