Frá vettvangi við Vesturlandsveg.
11 Júní 2019 10:44

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. júní.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 2. júní. Kl. 7.38 varð aftanákeyrsla í Suðurfelli við Breiðholtsbraut. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 15.08 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Nýbýlaveg, og léttu bifhjóli, sem var ekið norður Túnbrekku með fyrirhugaða akstursstefnu áfram norður Furugrund. Ökumaður létta bifhjólsins var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.38 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Breiðholtsbraut til suðurs, norðan Norðlingabrautar. Tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Þriðjudaginn 4. júní kl. 11.24 féll ökumaður bifhjóls af hjóli sínu í Kauptúni við bensínafgreiðslu Costco. Hann var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 5. júní. Kl. 7.48 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg, á ljósastaur við Víkurveg og velt. Ökumaðurinn, sem hafði „dottið út“ áður en óhappið varð, var fluttur á slysadeild. Kl. 8.19 varð drengur á reiðhjóli, sem hjólaði frá Grófarseli inn á Giljasel, fyrir bifreið, sem var ekið suður Giljasel. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 11.57 varð ökumaður á vespu fyrir bifreið í hringtorgi Bæjarbrautar og Hraunbæjar. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.59 rákust tveir hjólreiðamenn saman á göngustíg við Klappahlíð. Þeir voru báðir fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 6. júní kl. 17.43 var strætisvagni nauðhemlað í Álfabakka með þeim afleiðingum að flytja þurfti þrjá farþega á slysadeild.

Laugardaginn 8. júní kl. 14.53 lentu hjólreiðamaður, á leið vestur Tryggvagötu, og gangandi vegfarandi á leið yfir götuna gegnt húsi nr. 21, saman. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Vesturlandsveg.