Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.
2 Júlí 2019 10:05

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 23. – 29. júní, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhapp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 23. júní. Kl. 18.49 var bifreið ekið út af Meðalfellsvegi og ofan í skurð utan vegar, rétt inn af Kaffi Kjós austan við Borgarhól. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 22.25 varð aftanákeyrsla á Suðurlandsbraut, móts við Hilton Nordica. Fremri bifreiðin, sem hafði stöðvað við gangbrautarljós á vesturleið, kastaðist áfram og endaði á ljósastýringu gangbrautarvita, en ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Hinn ökumaðurinn slapp betur, en hann kvaðst hafa verið í sykurfalli og fengið sjóntruflanir í aðdraganda slyssins.

Þriðjudaginn 25. júní kl. 18.55 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar. Öðru ökutækinu var ekið suður Kringlumýrarbraut en hinu austur Háaleitisbraut. Samkvæmt vitni var öðrum bílnum ekið gegn rauðu umferðarljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 27. júní kl. 13.29 var ekið á dreng á reiðhjóli á Nesvegi, en hann hjólaði út á götuna framhjá illa staðsettri, kyrrstæðri bifreið á gangstétt með fyrrgreindum afleiðingum. Móðir drengsins ætlaði að meta hvort hún myndi leita með hann til læknis í framhaldinu.

Föstudaginn 28. júní kl. 17.40 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi, austan Höfðabakkabrúar, en þar var ekið á ökutæki á austurleið, sem hafði numið staðar. Ökumaður aftari bílsins sagðist hafa litið af veginum þegar hann var að ræða við farþega í bílnum. Ökumaður fremra bílsins var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.