6 Ágúst 2019 14:34

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. júlí – 3. ágúst, en alls var tilkynnt um 28 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 28. júlí kl. 14.37 var ekið á reiðhjólmann á gatnamótum Sæbrautar og Holtavegar. Reiðhjólmaðurinn var á leið yfir Sæbraut þegar slysið varð, en talið er að hann hafi hjólað gegn rauðu ljósi. Maðurinn, sem var ekki með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 29. júlí kl. 17.39 hafnaði bifreið utan vegar á Heiðmerkurvegi og valt eftir að ökumaður hennar missti stjórn á bílnum í krappri beygju á norðurleið. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikdaginn 31. júlí. Kl. 14.29 varð tveggja bíla árekstur á móts við Reykjavíkurveg 66 í Hafnarfirði, en þar var annarri bifreiðinni ekið út af bifreiðastæði og í veg fyrir hina. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.22 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni, sem ekið var áleiðis að hringtorgi við Bauhaus, með þeim afleiðingum að hún hafnaði á tveimur öðrum bifreiðum sem var ekið í sömu átt á Vesturlandsvegi. Ökumaðurinn, sem talið er að hafi fengið flogakast í aðdraganda slyssins, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Heiðmerkurveg.