23 Október 2019 11:37

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. október, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 13. október kl. 17.55 missti ökumaður bifreiðar, á leið suðaustur Víkurveg á brúnni yfir Vesturlandsvegi , stjórn á henni, fór yfir á öfugan vegarhelming og ók þar á tvær bifreiðar sem komu úr gagnstæðri átt. Ökumenn bifreiðanna, sem ekið var á, ásamt farþega voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 14. október. Kl. 9.46 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Reykjanesbraut, á móts við Álverið, og fór yfir á öfugan vegarhelming og þaðan út fyrir veginn þar sem bifreiðin valt nokkrar veltur. Ökumaðurinn, sem er talinn hafa sofnað undir stýri, var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.16 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Þingvallavegi, u.þ.b. 3 km ofan við Mosfellsdal, og hafnaði þar í skurði utan vegar. Framkvæmdir höfðu verið á veginum og búið var að keyra út moldarhaug í vegkantinn. Engar vegavinnumerkingar voru sjáanlegar á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 18. október kl. 21.13 var bifreið ekið á tvær bifreiðar á Reykjanesbraut á móts við Kauptún. Tjónvaldur fór fótgangandi af vettvangi, en fannst síðar eftir eftirgrennslan lögreglu. Ökumaður annarrarar bifreiðarinnar, sem ekið var á, leitaði sér aðhlynningar á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Reykjanesbraut.