29 Október 2019 16:45

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. október, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 21. október kl. 12.59 varð aftanákeyrsla á Hafnarfjarðarvegi til norðurs við Lyngás, en bifreiðin sem ekið var á var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótunum. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 23. október kl. 23.30 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á leið austur Suðurlandsveg, austan Litlu kaffistofunnar, sem hafnaði utan vegar og valt þar nokkrar veltur. Þrír, erlendir ferðamenn voru í bílnum og voru þeir allir fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 25. október. Kl. 10.23 ók hópbifreið austur Sæbraut og aftan á sendibifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótunum við Katrínartún. Ökumaður sendibifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 11.16 var bifreið ekið norður Njarðargötu, inn í hringtorg við Sóleyjargötu og þaðan á steinvegg, sem girðir af lóðarmörk vestan við Njarðargötu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 26. október. Kl. 1.35 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í beygju á Heiðmerkurvegi, við Strípisveg, og hafnaði í trjálundi utan vegar. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur. Þrír farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 13.11 rann bifreið á svellbunka, þegar henni var ekið norðvestur á malarslóða upp að Móskarðshnjúkum á Esju á leið sem liggur frá sumarhúsabyggð við Norðurnes í Kjós, og niður að gilbrún. Bifreiðin rann stjórnlaust í halla sem þarna er og valt einar sex veltur áður en hún stöðvaðist við gilbrún eins og áður sagði. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Hafnarfjarðarveg.