12 Nóvember 2019 09:45

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 3. – 9. nóvember, en alls var tilkynnt um 32 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 4. nóvember kl. 21.17 var bifreið ekið afrennsli frá Vesturlandsvegi við Rafstöðvarveg og þar aftan á aðra bifreið með sömu akstursstefnu, sem hafði stöðvað við vegamótin. Tveir farþegar voru í fremri bifreiðinni, annar var fluttur á slysadeild en hinn, barnshafandi kona, á fæðingardeildina.

Miðvikudaginn 6. nóvember kl. 8.57 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda við Hátún 10 (húsagata), en ökumaðurinn bar því við að hann hefði ekki séð vegfarandann í rökkrinu. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 7. nóvember kl. 1.20 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í Vesturbergi með þeim afleiðingum að hún valt á veginum. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 8. nóvember. Kl. 8.44 var ekið á gangandi vegfaranda á Snorrabraut, norðan Hverfisgötu. Ökumaðurinn bar því við að vegfarandinn hefði hlaupið þvert í veg fyrir bifreiðina. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.23 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Sævarhöfða og Svarthöfða. Annarri bifreiðinni var ekið austur Sævarhöfða og hinni norður Svarthöfða og inn á Sævarhöfða með fyrrgreindum afleiðingum. Við áreksturinn slösuðust tveir farþegar í annarri bifreiðinni.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi í Vesturbergi.