5 Nóvember 2019 12:06

Í síðustu viku slösuðust tuttugu og fjórir vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 27. október – 2. nóvember, en alls var tilkynnt um 56 umferðaróhöpp í umdæminu.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 28. október. Kl. 0.33 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Breiðholtsbraut við Vatnsveituveg og hafnaði á ljósastaur, en mikil hálka var á veginum. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 7.26 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á mótum Hólshrauns og Fjarðarhrauns með þeim afleiðingum að bíllinn snerist í nokkra hringi og hafnaði upp á gangstétt, en mikil hálka var á veginum. Farþegi var fluttur á slysadeild. Kl. 8.05 varð aftanákeyrsla við biðstöð Strætó á Vatnsendavegi við Hörðuvallaskóla, en ökumaður fremri bifreiðarinnar hafði numið staðar til að hleypa út barni og hugðist ökumaður aftari bifreiðarinnar gera slíkt hið sama, en náði ekki að stöðva í tæka tíð sökum mikillar hálku. Einn var fluttur á slysadeild og annar ætlaði að leita sér aðhlynningar í kjölfar árekstursins. Kl. 8.48 var vörubifreið með salttank og snjóplóg ekið á bifreið, sem var kyrrstæð í vegarkanti við Elliðavatnsveg við Vífilsstaðavatn. Við það ultu báðir bílarnir, en mjög mikil hálka var á veginum og höfðu þegar átta, aðrar bifreiðar hafnað utan vegar af sömu ástæðu. Ökumenn bílanna sem ultu voru báðir fluttir á slysadeild. Og kl. 9.48 var bifreið ekið suður afrennsli frá Reykjanesbraut inn á bifreiðastæði við Smáratorg og á enda vegriðs, en mikil hálka var á svæðinu. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 29. október. Kl. 13.34 varð aftanákeyrsla á mótum Kringlumýrarbrautar og Listabrautar, en ökumaður fremri bifreiðarinnar var að skipta um akrein og stöðva á rauðu ljósi þegar áreksturinn varð. Sá var fluttur á slysadeild. Kl. 15.06 var ekið á gangandi vegfaranda á bifreiðastæði við Smáratorg. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.03 var bifreið ekið á ljósastaur í Hamrahlíð á móts við Hlíðaskóla. Talið er að ökumaðurinn hafi sofnað undir stýri, en hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 30. október kl. 16.06 hjólaði reiðhjólamaður á gangandi vegfarandi við undirgöng hjá Egilshöllinni. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 31. október kl. 13.40 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Vesturlandsvegi, ók yfir á öfugan vegarhelming og á ljósastaur á móts við Lágafellskirkju. Grunur er um að ökumaðurinn hafi fengið flog eða heilablóðfall í aðdraganda slyssins. Hann var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 1. nóvember kl. 16.23 varð tveggja bíla árekstur á Reykjanesbraut við Krýsuvíkurveg. Annarri bifreiðinni var ekið afrein frá Krýsuvíkurvegi inn á Reykjanesbraut þar sem ökumaður hennar tók u-beygju og í veg fyrir aðvífandi bifreið. Bifreið fyrrnefnda ökumannsins valt, en alls voru tíu manns í bílunum tveimur og voru allir fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 2. nóvember kl. 2.34 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni í Selvogsgrunni, ók á kyrrstæða bifreið og valt. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild, en ökumaðurinn er grunaður um fíkniefnaakstur.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Elliðavatnsveg.