19 Nóvember 2019 11:33

Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. nóvember, en alls var tilkynnt um 27 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 11. nóvember kl. 8.20 var ekið á gangandi vegfaranda í Norðurfelli á móts við Asparfell. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Rigning og slæmt skyggni var á vettvangi.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 12. nóvember. Kl. 7.14 var bifreið ekið á reiðhjólamann á bifreiðastæði N1 við Hringbraut. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 7.36 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Sæbrautar og Klettagarða. Annarri bifreiðinni var ekið vestur Sæbraut, en hinni austur Sæbraut og hugðist ökumaður hennar beygja inn í Klettagarða þegar áreksturinn varð. Talið er að annar ökumaðurinn hafi ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 14. nóvember kl. 16.45 var bifreið ekið austur Bústaðaveg og aftan á tvær aðrar á móts við Litluhlíð. Fjórir voru fluttir á slysadeild. Tjónvaldurinn er grunaður um fíkniefnaakstur.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 15. nóvember. Kl. 8.25 var ekið á tvo, gangandi vegfarendur á Sæbraut við Kleppsmýrarveg. Vegfarendurnir voru fluttir á slysadeild. Kl. 9.04 varð fjögurra bifreiða árekstur á Suðurlandsvegi við Heiðmerkurveg. Þremur bílanna var ekið vestur Suðurlandsveg, en ökumaðurinn sem var fremstur hugðist beygja inn á Heiðmerkurveg. Ekið var aftan á þá bifreið, sem kastaðist á bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Bíllinn sem var á austurleið hafnaði jafnframt á bílnum, sem var aftur þeirra þriggja á vesturleið. Fimm voru fluttir á slysadeild, þar af tveir alvarlega slasaðir. Og kl. 9.28 valt bifreið á leið norður Hafravatnsveg, en mikil hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Hafravatnsveg.