3 Desember 2019 16:58

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. nóvember, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 24. nóvember kl. 18.41 varð tveggja bíla árekstur á gatanmótum Snorrabrautar og Egilsgötu og hafnaði önnur þeirra á ljósastaur. Annarri bifreiðinni var ekið suður Snorrabraut og hinni norður Snorrabraut, en báðir ökumennirnir hugðust beyja á gatnamótunum og aka síðan Egilsgötu til norðvesturs. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 25. nóvember kl. 7.42 missti ökumaður á leið suður Kringlumýrarbraut stjórn á bifreið sinni á móts við Nýbýlaveg, sem hafnaði á vegriði. Talsverð hálka var á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 27. nóvember. Kl. 11.24 var ekið á gangandi vegfaranda við gatnamót Laugavegar og Nóatúns. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.03 var vörubifreið ekið suður Gullinbrú og aftan á strætisvagn, sem hafði skömmu áður verið ekið frá biðstöð sem þar er á sömu akstursleið. Strætisvagninn kastaðist áfram og hafnaði utan vegar á ljósastaur. Ökumaður vörubifreiðarinnar og einn farþegi úr strætisvagninum voru fluttir á slysadeild. 

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Gullinbrú.