10 Desember 2019 12:19

Í síðustu viku slösuðust sautján vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 1. – 7. desember, en alls var tilkynnt um 39 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 1. desember kl. 21.21 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar. Annarri bifreiðinni var ekið austur Sæbraut en hinni vestur Sæbraut, en ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar hugðist beygja til vinstri og aka Kringlumýrarbraut í suður þegar áreksturinn varð. Báðir ökumennirnir og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Þriðjudaginn 3. desember kl. 9.48 ók strætisvagn á gangandi vegfaranda á Gömlu-Hringbraut við Laufásveg. Ökumaðurinn kvaðst ekki hafa orðið var við vegfarandann í aðdraganda slyssins. Vegfarandinn, sem var með endurskinsmerki, var fluttur á slysadeild.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 4. desember. Kl. 7.29 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Reykjavíkurvegar og Hjallabrautar. Annarri bifreiðinni var ekið austur Hjallabraut en hinni norður Reykjavíkurveg, en ökumaður hennar hugðist beygja til vinstri og aka Hjallabraut í vestur þegar áreksturinn varð. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 11 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á leið norður Hafnarfjarðarveg með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar og á grindverki á móts við Silfurtúni. Hálka og snjóslabb var á vettvangi. Ökumaðurinn, sem var í æfingaakstri, var fluttur á slysadeild ásamt leiðbeinanda sem sat honum við hlið. Kl. 12.05 varð aftanákeyrsla á gatnamótum Stekkjarbakka og Álfabakka þegar ekið var á bifreið sem hafði numið staðar á rauðu ljósi. Ökumaður bifreiðarinnar sem ekið var á var fluttur á slysadeild. Kl. 23.07 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á leið norður Vesturlandsveg, við Blikadalsá, með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar og valt eina og hálfa veltu. Snjókrapi var á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.08 varð aftur umferðarslys á Vesturlandsvegi við Blikadalsá. Þá missti ökumaður, sem var líka á norðurleið, stjórn á bifreið sinni sem rann stjórnlaust og fór yfir á öfugan vegarhelming og hafnaði framan á vöruflutningabifreið, sem var ekið Vesturlandsveg í suður. Þrjár bifreiðar voru í vegkantinum þegar þetta gerðist, en þeim var lagt þar eftir að önnur bifreið fór út af veginum og valt um einni mínútu fyrr eins og áður sagði. Seinni ökumaðurinn, sem ók í norður og lenti líka í umferðaróhappi, ætlaði að hægja á sér við slysstaðinn en það tókst ekki sem skyldi og því fór sem fór. Vöruflutningabifreiðin hafnaði utan vegar eftir áreksturinn, en alls voru fjórir fluttir á slysadeild eftir seinna óhappið á þessum stað.

Fimmtudaginn 5. desember kl. 12.55 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á leið austur Elliðavatnsveg við Vífilsstaðaveg. Bíllinn valt eina veltu og hafnaði utan vegar á hjólunum. Mikil hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 7. desember kl. 21.26 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á leið suður Vatnsendaveg, á móts við Asparhvarf, með þeim afleiðingum að hún hafnaði á undirgöngum utan vegar eftir að hafa farið yfir hljóðmön og niður slakka sem þar er. Talsverð hálka var á vettvangi. Tveir farþeganna úr bílnum voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Vatnsendaveg.