7 Janúar 2020 16:17

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. desember – 4. janúar, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 2. janúar. Kl. 7.41 missti ökumaður á leið austur Korpúlfsstaðaveg stjórn á bifreið sinni, sem rann yfir á öfugan vegarhelming og hafnaði á bifreið sem var ekið í gagnstæða átt. Í kjölfarið kviknaði eldur í annarri bifreiðinni sem barst svo yfir í hina.  Snjór og hálka var á vettvangi. Báðir ökumennirnir, sem náðu að komast út úr bílunum áður en eldurinn kviknaði, voru fluttir á slysadeild. Og kl. 22.58 varð fjögurra bíla árekstur á Reykjanesbraut, á móts við Smáralind, en öllum bílunum var ekið suður í sömu akstursátt. Ökumenn tveggja fremstu bílanna misstu stjórn á þeim í snjó og hálku, sem var á vettvangi. Ökumaður þriðja bílsins náði að stöðva í tæka tíð, en ekki sá sem ók fjórða bílnum. Síðastnefndi bíllinn hafnaði á bílnum fyrir framan, en bæði ökutækin köstuðust síðan áfram á bílana tvo sem  fyrst voru nefndir, en skafrenningur og snjókóf gerðu öllum ökumönnunum líka erfitt fyrir. Þrír voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 3. janúar kl. 16.57 varð aftanákeyrsla í innri hring í hringtorgi á mótum Fjarðarhrauns, Flatahrauns, Garðahrauns og Bæjarhrauns. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi við Reykjanesbraut.