14 Janúar 2020 09:44

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. janúar, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þriðjudaginn 7. janúar kl. 12.05 missti ökumaður á leið suður Kóraveg stjórn á bifreið sinni þegar hann kom að Baugstorg með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar á göngustíg við munna að undirgöngum við Kóraveg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 8. janúar kl. 14.26 varð tveggja bíla árekstur í Ögurhvarfi. Annarri bifreiðinni var ekið vestur götuna, en hinni í austurátt og hugðist ökumaður hennar taka vinstri beygju þegar slysið varð. Annar ökumannanna og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 9. janúar kl. 13.01 missti ökumaður á leið norður Hafnarfjarðarveg, á móts við Kópavogstún, stjórn á bifreið sinni, sem snerist á veginum og hafnaði á bíl sem var ekið í sömu akstursátt. Þriðji bíllinn, sem kom aðvífandi, hafnaði svo á bifreiðinni sem hafði þegar verið ekið á. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 10. janúar kl. 11.19 féll gámur af tengivagni flutningabifreiðar og á bifreið, sem kom úr gagnstæðri átt. Á eftir henni kom önnur bifreið og lenti hún á tengivagninum, sem í kjölfarið hafði rásað á veginum. Mikið hvassvirði var á vettvangi, en rannsókn slyssins beinist m.a. að frágangi á farmi. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.