25 Febrúar 2020 10:55
Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. febrúar, en alls var tilkynnt um 79 umferðaróhöpp í umdæminu.
Miðvikudaginn 19. febrúar kl. 17.32 varð árekstur fólksbíls og vörubifreiðar á Vesturlandsvegi við Esjuberg. Fólksbíllinn var á norðurleið þegar ökumaður hans ákvað að taka U-beygju á veginum og snúa við vegna slæms veðurs, en þá kom vörubifreiðin, sem var á suðurleið, aðvífandi og ók í hlið fólksbifreiðarinnar. Ökumaður og þrír farþegar úr síðarnefndu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild, en á vettvangi var mikill vindur, snjókoma, skafrenningur og gekk á með blindbyl. Veginum var lokað í u.þ.b. eina og hálfa klukkustund á meðan viðbragðsaðilar voru við vinnu á vettvangi.
Fimmtudaginn 20. febrúar kl. 8.43 missti ökumaður á leið suður Reykjanesbraut að mislægum vegamótum við Breiðholtsbraut stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún rakst utan í ljósastaur. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 22. febrúar kl. 15.59 missti ökumaður á leið austur Suðurbraut, við gatnamót Melabrautar og Þúfubarðs, stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún fór í gegnum trégirðingu og hafnaði inni í garði fjölbýlishúss við Suðurbraut þar sem bifreiðin valt á toppinn. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild, en mikil mildi þykir að ekki fór verr því fjölskylda var við leik í garðinum þegar slysið varð.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.