Frá vettvangi á Suðurlandsbraut.
19 Mars 2020 17:10

Í síðustu viku lést einn vegfarandi og tólf slösuðust í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. mars, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 8. mars. Kl. 0.48 var bifreið ekið út af Reykjanesbraut, norðan Kauptúns. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.46 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut til suðurs, á móts við Orkuna í Kópavogi. Ökumaður aftari bifreiðarinnar sagði að sólin hefði byrgt honum sýn. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 10. mars. Kl. 10 missti ökumaður á leið norður Reykjanesbraut, á móts við Brunnhóla í Hvassahrauni, stjórn á bifreið sinni þegar svínað var fyrir hann. Ökumaðurinn var að reyna að forða árekstri, en við það hafnaði bifreið hans utan vegar. Sá sem svínaði fyrir hann ók af vettvangi og skeytti ekkert um afleiðingarnar. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 11.08 varð þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut, á móts við Orkuna í Kópavogi. Ökumaður og tveir farþegar úr einum bílanna voru fluttir á slysadeild, en annar farþeganna, karlmaður um þrítugt, lést svo á Landspítalanum nokkrum dögum eftir áreksturinn. Lögreglan og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Og kl. 12 var bifreið ekið aftan á tvær aðrar bifreiðar, sem voru kyrrstæðar á rauðu ljósi við gangbraut á Suðurlandsbraut. Tjónvaldurinn sagðist hafa verið blindaður af sól í aðdraganda slyssins. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar sem ekið var á var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 11. mars kl. 23.13 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Seljaskóga. Annarri bifreiðinni var ekið suður Breiðholtsbraut og hinni norður Breiðholtsbraut, en síðarnefndi ökumaðurinn tók vinstri beygju og hugðist síðan aka Seljaskóga til vesturs þegar áreksturinn varð. Fjórir voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.