Frá vettvangi á Reykjanesbraut.
25 Mars 2020 13:29

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. mars, en alls var tilkynnt um 22 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 15. mars kl. 13.28 missti ökumaður á leið vestur Suðurlandsveg, við Sandskeið, stjórn á bifreið sinni, sem hafnaði á víravegriði. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafi ekið í uppsafnaðan snjó, sem var á veginum vegna skafrennings. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 17. mars kl. 16.26 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut, á móts við Hæðarsmára, og aftan á vinnuvél, sem var ekið á hægri akrein í sömu akstursátt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Þess má geta að akstur vinnuvéla á þessum kafla Reykjanesbrautar er bannaðar virka daga frá kl. 7-9 og 15-18.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 18. mars. Kl. 14.53 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Selhellu og Miðhellu. Annarri bifreiðinni var ekið norður Selhellu, en hinni austur Miðhellu. Biðskylda er fyrir umferð um Miðhellu. Ökumaður og þrír farþegar úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.48 var ekið á mann á reiðhjóli á gatnamótum Bústaðavegar og Stjörnugrófar. Þarna eru gangbrautarljós og sagði reiðhjólamaðurinn að grænt ljós hefði logað fyrir akstursstefnu hans. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 21. mars kl. 7.52 missti ökumaður á leið vestur Sæbraut, á móts við Kambsveg, stjórn á bifreið sinni, sem fór upp á umferðareyju, sem aðskilur akstursáttir, og þaðan á vegrið við hægri brún vegar þar sem hún stöðvaðist. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.