Frá vettvangi á Bæjarhálsi.
4 Maí 2020 17:00

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. apríl – 2. maí, en alls var tilkynnt um 33 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 26. apríl kl. 11.56 féll reiðhjólamaður af hjóli sínum á göngustíg, norðan við Bauhaus, eftir að hafa hjólað á steinhleðslu sem þarna er. Reiðhjólamaðurinn sagðist hafa misreiknað hraðann sem hann var á, í aðdraganda slyssins, og ekki náð krappri beygju sem þarna er með fyrrgreindum afleiðingum, en stígurinn var þurr og hreinn. Reiðhjólamaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 28. apríl kl. 19.34 féll bifhjólamaður af hjóli sínu í hringtorgi á mótum Vesturlandsvegar og Korpúlfsstaðavegar. Bifhjólmaðurinn ók á hægri akrein að hringtorginu, samsíða stórri flutningabifreið sem tók mikið pláss á vinstri akrein í hringtorginu. Bifhjólamaðurinn kvaðst hafa verið á lítilli ferð, en misst stjórn á hjólinu og runnið til í möl/sandi sem lá á veginum þegar hann hugðist beygja út úr hringtorginu. Bifhjólamaðurinn, sem var hjálm og annan viðeigandi öryggisbúnað, var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 30. apríl kl. 14.36 missti bifhjólamaður stjórn á hjóli sínu í hringtorgi á mótum Bæjarháls og Tunguháls. Lausamöl var á yfirborði vegarins. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 1. maí kl. 11.34 missti bifhjólmaður stjórn á hjóli sínu á mótum Bústaðavegar og Vesturhlíðar. Framkvæmdir voru á veginum og þurfti ökumaðurinn þá að skipta um akrein vegna þessa og rann þá hjólið til í bleytu á veginum með fyrrgreindum afleiðingum. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.