Frá vettvangi á Hafnarfjarðarvegi.
19 Maí 2020 12:23

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 10. – 16. maí, en alls var tilkynnt um 23 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 12. maí. Kl. 7.11 rákust saman tveir reiðhjólamenn á merktum göngu- og hjólastíg á móts við nýbyggingu Herkastalans við Suðurlandsbraut. Annar hjólaði til vesturs, en hinn til austurs þegar slysið varð. Annar hjólreiðamannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.22 varð aftanákeyrsla þegar bifreið var ekið austur frárein á Bústaðavegi og á aðra, sem var kyrrstæð í röð ökutækja með akstursstefnu suður Kringlumýrarbraut. Ökumaður bílsins sem ekið var á var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 13.maí kl. 13.27 rákust saman bifreið, sem var ekið út af bifreiðastæði við Hafnarfjarðarkirkju, Suðurgötumegin, og rafmagnshlaupahjól, en ökumaður þess var á suðurleið á gangstétt sem liggur meðfram götunni. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 14. maí kl. 1.16 missti ökumaður á leið suður Hafnarfjarðarveg stjórn á bifreið sinn þegar hann ók á kantstein í Kópavogsgjá, á móts við Hamraborg, og hafnaði á gangnavegg. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 15. maí kl. 17.15 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg og aftan á aðra, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótunum við Engidal. Ökumaður bílsins sem ekið var á var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.