Frá vettvangi á Hjallahrauni.
27 Maí 2020 17:24

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 17. – 23. maí, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 17. maí kl. 14.43 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á mótum Suðurlandsbrautar og Álfheima. Bifreiðinni var ekið frá Suðurlandsbraut og áleiðis norður Álfheima, en reiðhjólamaðurinn var á leið vestur yfir Álfheima, á milli Glæsibæjar og bensínstöðvar Olís. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 22. maí. Kl. 10.46 var léttu bifhjóli, vespu, ekið á barn á lóð Vættaskóla. Farið var með barnið á slysadeild, en málið var tilkynnt til lögreglu daginn eftir. Ökumaðurinn vespunnar sagðist hafa verið að aka fyrir blindhorn í aðdraganda slyssins. Hann sagði jafnframt að farþegi á vespunni í umrætt sinn hefði handleggsbrotnað. Haft var samband við forráðamann farþegans og hann upplýstur um slysið, en farþeginn hafði ekki greint frá tilurð áverkanna með réttum hætti. Kl. 15.19 varð aftanákeyrsla á Suðurgötu þegar bifreið, sem var ekið austur Starhaga og beygt suður Suðurgötu, hafnaði aftan á annarri bifreið sem hafði numið staðar við rautt gangbrautarljós. Farþegi í bifreiðinni sem ekið var á var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.17 varð tveggja bíla árekstur á Hjallahrauni þegar annarri var beygt í veg fyrir hina. Önnur bifreiðin var á leið austur en hin vestur. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 23. maí kl. 20.23 var bifhjóli ekið aftan á bifreið á Kóravegi við Vatnsendaveg. Bifreiðinni var ekið úr hringtorgi á gatnamótunum með akstursstefnu norður Kóraveg þegar ökumaðurinn stöðvaði snögglega vegna vespu sem var ekið yfir gangbraut sem þarna er. Ökumaður bifhjólsins, sem ók sömu leið, náði að ekki að stöðva hjólið með fyrrgreindum afleiðingum. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.