Frá vettvangi á Háaleitisbraut.
8 Júní 2020 22:26

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 31. maí – 6. júní, en alls var tilkynnt um 31 umferðaróhapp í umdæminu.

Þrjú umferðaslys voru tilkynnt sunnudaginn 31. maí. Kl. 2.13 rákust saman bíll og rafhlaupahjól á Eggertsgötu við gatnamót Suðurgötu. Í aðdragandanum fór hjólreiðamaðurinn vestur Eggertsgötu, sömu leið og ökumaðurinn, og rakst þá í hlið bifreiðarinnar á upphækkaðri gönguþverun sem þarna er. Hjólreiðamaðurinn, sem eru grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Kl. 12.25 varð aftánkeyrsla á Bústaðavegi á móts við Ásgarð. Ökumaður á leið vestur götuna snögghemlaði vegna umferðar fram undan, en ökumaðurinn sem á eftir honum kom náði ekki að bregðast við með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.15 missti ökumaður á leið austur Safamýri stjórn á bifreið sinni og hafnaði á tveimur kyrrstæðum og mannlausum bifreiðum. Talið er að maðurinn hafi ekið mjög ógætlega í aðdragandanum, m.a. langt yfir leyfðan hámarkshraða. Ökumaðurinn, sem er grunaður um fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 2. júní kl. 12.03 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Reykjanesbraut við gatnamót Bústaðavegar. Bíl á leið norður var ekið aftan á annan, sem kastaðist áfram á þann þriðja. Ökumaður aftasta bílsins taldi að grænt ljós logaði fyrir akstursstefnu hans, en sá á fremsta bílnum hafði numið staðar vegna þess að rautt ljós logaði að hans mati. Ökumaður aftasta bílsins var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 5. júní kl. 8.36 rákust saman tveir hjólreiðamenn á göngustíg neðan Sogavegar. Í aðdragandanum hjólaði annar mannanna í vestur, en hinn í austur, en talið er að trjágróður hafi byrgt þeim sýn. Annar hjólreiðamannanna var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 6. júní. Kl. 10 var bifreið ekið norður Háaleitisbraut og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á vinstribeygju rein fyrir umferð vestur Safamýri. Ökumaður aftari bifreiðarinnar, sem hafði þegar verið sviptur ökuleyfi, var fluttur á slysadeild. Kl. 13.14 valt Buggytæki (skráð dráttarvél) á hliðina á Norðurgrafarvegi á Kjalarnesi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.41 varð þriggja bíla árekstur í Hvalfjarðargöngunum. Bíll á leið suður fór yfir á öfugan vegarhelming og hafnaði á tveimur bifreiðum sem var ekið göngin í norður. Tveir ökumannanna og einn farþegi voru fluttir á slysadeild og sjúkrahúsið á Akranesi. Slysið varð í sunnanverðum Hvalfjarðargöngum og var þeim lokað í nokkurn tíma, eða á meðan vinna á vettvangi stóð yfir.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.