Frá vettvangi á Arnarnesvegi.
2 Júlí 2020 12:11

Í síðustu viku slösuðust fimmtán vegfarendur í ellefu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. júní, en alls var tilkynnt um 54 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 21. júní kl. 16.53 var ekið á hjólreiðamann á gangbraut í Háholti, á móts við Krónuna. Hjólreiðmaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 22. júní. Kl. 10.42 rákust saman reiðhjól og bifreið á gangbraut á mótum Fitjalindar og Fífuhvammsvegar. Ökumaðurinn sagðist ekki hafa séð reiðhjólamanninn fyrr en hann skall á bifreiðinni og bar einnig við að há girðing hefði byrgt honum sýn. Reiðhjólamaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.07 varð árekstur létts bifhjóls og bifreiðar á bifreiðastæði við Birkigrund. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 23. júní. Kl. 12.48 varð aftanákeyrsla á Gullinbrú, norðan Fjallkonuvegar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar hafði dregið snögglega úr hraða vegna umferðar og ökumaður þeirrar aftari ekki náð að bregðast við með fyrrgreindum afleiðingum. Síðarnefndi ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.05 varð árekstur létts bifhjóls og bifreiðar í Álfabakka. Bæði ökutækin voru á suðurleið, en áreksturinn varð þegar ökumaður bifreiðarinnar hugðist beygja til vinstri og aka Álfabakka í austur, en þá var bifhjólið komið að hlið bifreiðarinnar. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild, en ökumaður bifreiðarinnar fór af vettvangi áður en viðbragðsaðilar komu á staðinn og mun hafa borið fyrir sig tímaskorti!

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 24. júní. Kl. 2.33 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á hringtorgsbrú á Arnarnesvegi, ofan Reykjanesbrautar, og hafnaði á vegriði og steyptu brúarhandriði. Ökumaðurinn er grunaður um fíkniefnaakstur. Hann og farþegi voru fluttir á slysadeild. Kl. 18.02 hjólaði maður á bílhurð kyrrstæðrar bifreiðar, sem var opnuð út í umferðina, í Einarsnesi. Hjólreiðmaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.20 missti ökumaður á léttu bifhjóli stjórn á því á göngustíg aftan við Fífuna og hafnaði á ljósastaur. Hann og farþegi voru fluttir á slysadeild, en hvorugur var með hjálm.

Fimmtudaginn 25. júní kl. 17.38 rákust saman reiðhjól og bifreið á mótum Vesturhóla og Vesturbergs. Ökumaður bifreiðarinnar nam ekki staðar og hélt för sinn rakleiðis áfram. Hjólreiðmaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 26. júní kl. 21.21 féll maður af rafhlaupahjóli á hjólastíg á Hverfisgötu. Hjólreiðamaðurinn, sem var hjálmlaus og ölvaður, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 27. júní kl. 7.26 missti ökumaður á leið norður Vesturlandsveg stjórn á bifreið sinni, sem hafnaði á umferðarmerki og síðan utan vegar nærri Hvalfjarðargöngunum. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.