Frá vettvangi í Vatnagörðum.
6 Júlí 2020 22:32

Í síðustu viku létust tveir og átta slösuðust í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. júní – 4. júlí, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 28. júní kl. 15.13 varð árekstur bifhjóls og húsbíls á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi, norðan Grundarhverfis. Ökutækin voru að koma úr gagnstæðri átt, en ökumaður og farþegi á bifhjólinu létust í slysinu. Annað bifhjól kom aðvífandi þegar áreksturinn varð og missti ökumaður þess stjórn á hjólinu og féll af því. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 29. júní. Kl. 7.12 var ekið á hjólreiðamann á gönguþverun við hringtorg á mótum Borgavegar og Langarima. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 8.10 hafnaði hjólreiðamaður á hlið bifreiðar á göngustíg í Skaftahlíð. Ökumaðurinn, sem sagði að gróður hefði byrgt honum sýn, var að aka frá bifreiðastæði inn á götuna þegar slysið varð. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 30. júní kl. 16.49 rákust saman bifreið og bifhjól í Vatnagörðum. Bifreiðinni var ekið vestur götuna, en bifhjólinu í austur. Ökumaður bifreiðarinnar hugðist beygja inn á bílastæði við götuna þegar áreksturinn varð. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 1. júlí. Kl. 11.39 varð aftanákeyrsla í Vatnsendahvarfi við Urðarhvarf. Ökumaður fremri bifreiðarinnar dró snögglega úr hraðanum með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.54 var ekið á hjólreiðamann á gatnamótum Öldugötu og Hringbrautar. Hann hjólaði vestur Öldugötu, við hlið merktrar gangbrautar, þegar slysið varð, en ökumaður bifreiðarinnar ók suður Hringbraut og hugðist beygja inn á Öldugötu til austurs. Hjólreiðamaðurinn, sem var hjálmlaus, var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 2. júlí kl. 15.04 rákust saman rafhlaupahjól og bifreið á Flugvallarvegi. Sá á hjólinu var á gangstétt og á norðurleið, rétt eins og ökumaður bifreiðarinnar sem hugðist taka hægri beygju inn á bifreiðastæði þegar slysið varð. Hjólreiðamaðurinn kom sér sjálfur á slysadeild.

Laugardaginn 4. júlí kl. 12.42 missti ökumaður Buggybifreiðar (skráð bifhjól) stjórn á því á leið frá Esjumelum austur Skarðsveg að Móaskarðshnjúkum með þeim afleiðingum að tækið valt á hliðina. Farþegi var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.