Frá vettvangi á Höfðabakka.
30 Júlí 2020 10:04

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 19. – 25. júlí, en alls var tilkynnt um 25 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 19. júlí kl. 19.04 var rafhlaupahjóli ekið í hlið bifreiðar á/við hraðahindrun í Hrísrima, en í aðdragandanum ók ökumaður hjólsins göngustíg í suðurátt og út á götuna með fyrrgreindum afleiðingum. Á þessum stað er trjágróður sem skerðir útsýnið. Ökumaður rafhlaupahjólsins, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 21. júlí kl. 14.45 var rafhlaupahjóli ekið á gangstétt vestur Laugaveg og á kyrrstæða bifreið, sem var að koma frá athafnasvæði Heklu, en ökumaður hennar beið færis að komast inn á Laugaveg til austurs.  Ökumaður rafhlaupahjólsins, sem var með hjálm, ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 22. júlí. Kl. 8.06 rákust saman reiðhjól og rafhlaupahjól á hjólreiðastíg við Skjólbraut í Kópavogi. Annar ökumannanna var að taka fram úr þegar slysið varð, en hinn beygði þá í veg fyrir hann. Reiðhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.50 var ekið á pilt á reiðhjóli á Kvistavöllum í Hafnarfirði. Ökumaðurinn sagði að sólin hefði blindað honum sýn. Pilturinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 24. júlí kl. 13.52 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Höfðabakka við Dvergshöfða. Fremsti bíllinn hafði stöðvað vegna strætisvangs, sem var kyrrstæður við biðstöð, og ökumenn tveggja bíla sem á eftir komu náðu ekki að bregðast við í tæka tíð. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.