Frá vettvangi við Hafnarfjarðarveg.
20 Júlí 2020 10:12

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. júlí, en alls var tilkynnt um 31 umferðaróhapp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 12. júlí. Kl. 15.49 missti ökumaður, sem ók Sæbraut og síðan aðrein í vestur að Miklubraut, stjórn á bifreið sinni, sem hafnaði á vegriði og valt síðan á toppinn. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.15 varð tveggja bíla árekstur á Hafnarfjarðarvegi, á móts við Goðatún. Annarri bifreiðinni var ekið í norður, en hinni í suður. Ökumaður síðarnefnda bílsins hugðist taka vinstri beygju og aka síðan Goðatún í austur þegar áreksturinn varð. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 13. júlí. Kl. 14.30 rákust saman vespa og rafmagnshlaupahjól á göngustíg við Brúarland í Mosfellsbæ. Piltur, sem var á rafmagnshlaupahjólinu, var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.45 féll piltur af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg meðfram Kringlumýrarbraut, en hann var þar á suðurleið, norðan við Bústaðavegarbrúnna. Pilturinn, sem var með hjálm, sagðist hafa hjólað ofan í holu og við það dottið af hjólinu. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 15. júlí kl. 17.36 varð aftanákeyrsla á Miklubraut við Grensásveg. Ökumaður fremri bifreiðarinnar, sem ók Miklubraut í austur, nam staðar þegar rautt ljós kviknað fyrir akstursstefnu hans, en ökumaður sem á eftir kom náði ekki að bregðast við tímanlega með fyrrgreindum afleiðingum. Fyrrnefndi ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 16. júlí kl. 7.34 missti ökumaður, sem ók frárein af Reykjanesbraut í austur inn á Vesturlandsveg að Ártúnsbrekku, stjórn á bifreið sinni og hafnaði á bifreið sem var ekið Vesturlandsveg í austur á vinstri akrein. Vatnselgur var á veginum þegar slysið varð, en báðar bifreiðarnar höfnuðu utan í vegriði. Fyrrnefndi ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 17. júlí kl. 12.37 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Aftasti bíllinn ók á þann í miðjunni þegar ökumaður hans dró úr hraðanum vegna umferðar, en við kastaðist bíll hans áfram á þann þriðja. Ökumaður úr einum bílanna og farþegi úr öðrum voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.