13 Júlí 2020 09:49
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. júlí, en alls var tilkynnt um 26 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 7. júlí. Kl. 13.17 var bifreið ekið í veg fyrir aðra á Kringlumýrarbraut, á móts við Listabraut. Báðar bifreiðarnar voru á norðurleið þegar ökumaður á miðrein ákvað skyndilega að taka U-beygju og ók í veg fyrir bifreið á vinstri akrein. Síðarnefndi ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Þess má geta að U-beygja er óheimil á þessum stað. Kl. 16.30 rákust saman reiðhjól og bifreið á gatnamótum Suðurvarar og Kópavogsbrautar. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með hjálm, var á vesturleið á gangstétt, sem liggur meðfram Kópavogsbraut, þegar slysið varð, en bifreiðinni var ekið norður Suðurvör í aðdragandanum. Reiðhjólamaðurinn fór sjálfur á slysadeild. Og kl. 20.08 féll maður af reiðhjóli í Dimmuhvarfi þegar hann missti stjórn á hjólinu í götukanti við malarstíg. Reiðhjólamaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 8. júlí kl. 21.14 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut, skammt norðan við Vífilsstaðaveg, og á ljósastaur þar sem hún valt. Við áreksturinn brotnaði ljósastaurinn og féll á aðra bifreið sem kom aðvífandi. Ökumaðurinn sem ók á ljósastaurinn er grunaður um lyfjaakstur. Hann var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 11. júlí kl. 18.12 missti ökumaður bifhjóls, sem ók austur Miklubraut og á aðrein fyrir umferð suður Kringlumýrarbraut, stjórn á hjólinu og féll í götuna. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafa nauðhemlað vegna umferðar fram undan sem hafði stöðvast skyndilega. Hann var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.