Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.
5 Ágúst 2020 11:16

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. júlí – 1. ágúst, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 26. júlí kl. 17.23 var ekið á hjólreiðamann sem hjólaði yfir hraðahindrun á Snorrabraut við Borgartún/Skúlagötu. Ökumaðurinn bifreiðarinnar, sem var ekið norður Snorrabraut, fór rakleiðis af vettvangi án þess að huga að reiðhjólmanninum. Hann er þó kominn í leitirnar, þökk sé erlendum ferðamönnum sem náðu skráningarnúmeri bifreiðarinnar. Reiðhjólmaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á læknavaktina.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 27. júlí. Kl. 8.02 ók ökumaður á léttu bífhjóli á umferðarskilti við gangstétt á Suðurgötu við Þorragötu. Ökumaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild, en hjálmlausan farþega sakaði ekki. Og kl. 17.35 varð aftanákeyrsla á Hringbraut þegar bifreið á austurleið, að Melatorgi, var ekið aftan á aðra. Ökumaður fremri bifreiðarinnar, sem hafði stöðvað  vegna umferðar fram undan, var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 28. júlí kl. 19.05 féll ökumaður af bifhjóli þegar hann ók á æfingasvæði Kvartmílubrautarinnar í Hafnarfirði. Hann var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 29. júlí kl. 16.14 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsveg við hringtorg sunnan við Bauhaus. Ökumaður fremri bifreiðarinnar hafði stöðvað vegna umferðar fram undan. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 30. júlí kl. 7.58 rákust saman pallbíll og bifhjól á mótum Stórhöfða og Breiðhöfða. Í aðdraganda slyssins var bifhjólinu ekið norður Breiðhöfða, en pallbílnum vestur Stórhöfða með fyrirhugaða akstursstefnu suður Breiðhöfða. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 1. ágúst kl. 14.44 var bíl ekið aftan á annan á Vesturlandsvegi, sunnan hringtorgs við Skarhólabraut. Ökumaður fremra bílsins, sem var ekið í norður, hafði numið staðar vegna umferðar fram undan. Sá sem á eftir kom náði ekki að bregðast við í tæka tíð, en á vettvangi var nýlega lagt malbik og það gefið til kynna með umferðarmerki og hraði jafnframt lækkaður í 50. Ökumaður og farþegi í fremra bílnum voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.