Frá vettvangi við Fjarðarkaup.
23 September 2020 13:53

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. september, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 14. september kl. 18 rákust saman bifreið og reiðhjól á gatnamótum Hverfisgötu og Frakkastígs. Í aðdragandanum var reiðhjólamaðurinn á hjólastíg á leið vestur Hverfisgötu, en bifreiðinni var ekið norður Frakkastíg. Reiðhjólamaðurinn fór sjálfur á slysadeild, en starfsmenn hennar tilkynntu lögreglu um slysið.

Miðvikudaginn 16. september kl. 13.32 rákust saman létt bifhjól og bifreið á bifreiðastæði við Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var bifhjólinu ekið á milli kyrrstæðra bifreiða, en fyrrnefndri bifreið var ekið eftir akstursleið á bifreiðastæðinu. Bifhjólamaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 18. september. Kl. 7.45 var ekið á hjólreiðamann á rafmagnshlaupahjóli, sem var á leið yfir gönguþverun í beygjuvasa á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, en bifreiðinni var ekið norður Kringlumýrarbraut og beygt austur Miklubraut. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 16.35 var bifreið ekið á bifhjól á Sólvangsvegi í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var bifhjólinu ekið norður götuna, en bifreiðinni í suður og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og inn á bifreiðastæði sem þar eru. Bifhjólamaðurinn, sem var með hjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.32 varð árekstur á gatnamótum Álfaskeiðis og Flatahrauns. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Álfaskeið og hugðist ökumaður hennar aka yfir götuna og inn á bifreiðastæði við Krónuna, en hinn bifreiðinni var ekið vestur Flatahraun. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 19. september kl. 10.52 missti reiðhjólamaður stjórn á hjóli sínu á Elliðavatnsvegi, við Maríuhelli, og féll utan í hlið aðvífandi bifreiðar og í götuna. Í aðdragandanum hafði maðurinn hjólað ofan í holu á veginum. Hann var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.