Frá vettvangi við Suðurlandsveg.
22 Október 2020 11:20

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. október, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 12. október kl. 19.28 missti hjólreiðamaður stjórn á hjóli sínu þegar hann hjólaði á grjót, sem stóð upp úr malarstíg frá Elliðavatnsvegi, gegnt Elliðavatnsbænum, og féll á stíginn. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 13. október. Kl. 7.15 var bifreið ekið aftan á aðra á Suðurlandsvegi í Lögbergsbrekku, en báðar bifreiðirnar voru á austurleið. Við áreksturinn fór aftari bifreiðin út fyrir veg og valt þar nokkrar veltur uns hún stöðvaðist á hjólunum. Ökumaður bifreiðarinnar sem valt er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 14.20 hafnaði hjólreiðamaður á rafhlaupahjóli aftan á bifreið, sem var kyrrstæð og mannlaus á bifreiðastæði við Þinghólsbraut. Við áreksturinn féll hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með hjálm, í götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 16.01 rákust saman tveir hjólreiðamenn á göngustíg á móts við bensínstöð Costco í Kauptúni. Annar hjólreiðamannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.07 varð aftanákeyrsla á Digranesvegi, en í aðdragandanum voru báðar bifreiðirnar á austurleið. Ökumaður þeirra fremri hugðist síðan taka U-beygju og hægði á sér, en sá sem á eftir kom náði ekki að bregðast við með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.