Frá vettvangi á gatnamótum Nýbýlavegar og Dalvegar.
17 Nóvember 2020 11:39

Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 8. – 14. nóvember, en alls var tilkynnt um 29 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 8. nóvember kl. 19.49 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Dalvegar og Nýbýlavegar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur/norðaustur Dalveg og hugðist ökumaður hennar beygja til hægri á gatnamótunum og aka síðan Breiðholtsbraut til austurs, en hinni bifreiðinni var ekið inn á gatnamótin frá Nýbýlavegi með akstursstefnu austur Breiðholtsbraut. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 9. nóvember. Kl. 19.13 var ekið á gangandi vegfaranda á mótum Hafnarfjarðarvegar og Kringlumýrarbrautar, norðan Hamraborgar. Vegfarandinn, sem var í annarlegu ástandi, var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.40 var ekið á hjólreiðamann á gangbraut á Arnarnesvegi við Fífuhvammsveg. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið vestur Arnarnesveg, en hjólreiðamaðurinn fór yfir gangbrautina til norðurs. Aðstandandi flutti hjólreiðamanninn á slysadeild.

Fimmtudaginn 12. nóvember kl. 11. 03 var ekið á tvo, gangandi vegfarendur við Byko á Skemmuvegi. Ökumaðurinn stöðvaði bifreiðina og hugaði að vegfarendunum, en ók síðan af vettvangi og hringdi þá í Neyðarlínuna og tilkynnti um slysið. Ökumanninum var gert að snúa aftur á vettvang og bíða eftir lögreglu, sem og hann gerði. Vegfarendurnir fóru sjálfir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.