Frá vettvangi á Sæbraut, norðan Súðarvogs.
25 Nóvember 2020 11:23

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 15. – 21. nóvember, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þriðjudaginn 17. nóvember kl. 13.36 var bifreið, á leið vestur Vesturlandsveg í Ártúnsbrekku að Miklubraut, ekið aftan á aðra, sem var kyrrstæð vegna bilunar á akrein lengst til vinstri. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 18. nóvember. Kl. 9.02 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Sæbraut, norðan Súðarvogs. Aftasta bílnum var ekið norður Sæbraut og aftan á aðra, sem við það kastaðist áfram á þá þriðju. Bæði miðjubíllinn og sá fremsti voru kyrrstæðir vegna umferðar fram undan. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.02 varð aftanákeyrsla á Reykjanesbraut í Garðabæ þegar bifreið á vesturleið, á móts við Marel, var ekið aftan á aðra, sem var kyrrstæð vegna umferðar fram undan. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 20. nóvember. Kl. 9.20 missti ökumaður, á leið vestur Vesturvör, stjórn á bifreið sinni, sem hafnaði utan vegar á malarbing og valt. Á þessum stað tekur malarvegur við þar sem malbikinu sleppir. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.57 var ekið á gangandi vegfarandi á gangbraut við gatnamót Kaldárselsvegar, Klettahlíðar og Brekkuáss. Þarna er hringtorg, en í aðdragandanum var bifreiðinni ekið út úr því og inn í Brekkuás. Gangandi vegfarandinn, sem var í dökkum hlaupafötum, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 21. nóvember kl. 8.43 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Sæbraut, en hinni vestur Sæbraut og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka suður Kringlumýrarbraut. Ágreiningur er uppi um stöðu umferðarljósa þegar áreksturinn varð. Báðir ökumennirnir og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.