Frá vettvangi á Kringlumýrarbraut.
22 Desember 2020 10:59

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. desember, en alls var tilkynnt um 19 umferðaróhöpp í umdæminu.

Mánudaginn 14. desember kl. 16.41 var bifreið ekið á hjólreiðamann á gatnamótum Ármúla og Háaleitisbrautar. Bifreiðinni var ekið Ármúla til suðurs og beygði ökumaður hennar til hægri og hugðist síðan aka Háaleitisbraut til vesturs, en hjólreiðamaðurinn var á leið yfir gangbraut sem þarna er. Sá síðarnefndi, sem var ekki með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 16. desember kl. 11.21 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Kringlumýrarbrautar, Laugavegar og Suðurlandsbrautar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Kringlumýrarbraut, en hinni suður Kringlumýrarbraut og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka austur Suðurlandsbraut. Sá síðarnefndi er grunaður um að hafa ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Fimmtudaginn 17. desember kl. 15.55 var bifreið ekið aftan á skiltakerru á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, móts við Suðurholt. Kerran, sem var tengd aftan í kyrrstæða vinnubifreið, var á hægri akrein, en merkingar á vettvangi, akbrautarmerki og ljósör, voru með boð til ökumanna um að aka þarna (merkt vinnusvæði) á vinstri akrein. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn, sem var fluttur á slysadeild, hafa verið utan við sig.

Föstudaginn 18. desember kl. 5.35 missti ökumaður á leið austur Suðurlandsveg, á móts við Lögbergsbrekku, stjórn á bifreið sinni, sem lenti utan vegar á stórum steini og kastaðist síðan aftur inn á veginn og staðnæmdist þar þversum. Í aðdragandanum er talið að ökumaðurinn hafi sofnað, en hann hafði ekið samfellt um langan veg áður en slysið varð. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 19. desember kl. 17.42 var bifreið ekið austur Breiðholtsbraut og aftan á aðra við gatnamót við Vatnsendahvarf, en fremri bifreiðin var kyrrstæð á rauðu ljósi. Í aðdragandanum sagðist ökumaður aftari bifreiðarinnar ekki hafa náð að hemla í tæka tíð. Ökumaður og þrír farþegar úr fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.