Frá vettvangi á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.
5 Febrúar 2021 15:17

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. – 30. janúar, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 24. janúar kl. 17.34 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Háaleitisbrautar og Kringumýrarbrautar. Annarri bifreiðinni var ekið vestur Háaleitisbraut og inn á gatnamótin, en hinni austur Háaleitisbraut og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka Kringlumýrarbraut í norður. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 25. janúar. Kl. 10.13 var bifreið ekið á hjólreiðamann á mótum Suðurgötu og Þorragötu. Ökumaður bifreiðarinnar var á suðurleið, en hann sagðist í aðdragandanum hafa verið með augun á loftfari sem var að koma til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. Hjólreiðamaðurinn, sem var með hjálm og ætlaði yfir Suðurgötu til vesturs, var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.09 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Hraunhellu og Suðurhellu. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið vestur Hraunhellu, en hinni suður Suðurhellu og inn á gatnamótin. Biðskylda er fyrir umferð gagnvart Hraunhellu. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 26. janúar. Kl. 13.39 varð tveggja bíla árekstur á mótum Snorrabrautar og Flókagötu. Annarri bifreiðinni var ekið suður Snorrabraut, en hinn norður Snorrabraut og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka að bensínstöð sem þar er. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 13.50 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut og aftan á aðra kyrrstæða á rauðu ljósi á gatnamótunum við Bústaðaveg. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn, sem ók aftan á hina bifreiðina, hafa blindast af sólinni. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 27. janúar. Kl. 12 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Sæbrautar, Kleppsmýrarvegar og Skeiðarvogs. Annarri bifreiðinni var ekið austur Skeiðarvog áleiðis að Kleppsmýrarvegi, en hinni vestur Kleppsmýrarveg og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka Sæbraut í suður. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.47 var bifreið ekið suður Klapparstíg og á mann á  rafhlaupahjóli sem var á leið vestur Laugaveg. Maðurinn á rafhlaupahjólinu var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 29. janúar kl. 21.59 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á gatnamótum Skothúsvegar, Sóleyjargötu og Fríkirkjuvegar. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið Skothúsveg og beygt til hægri, með akstursstefnu suður Sóleyjargjötu, á vegfarandann, sem var að þvera Sóleyjargötu á grænu gangbrautarljósi. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um fíkniefnaakstur.

Laugardaginn 30. janúar kl. 2.01 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Breiðhöfða og Bíldshöfða. Annarri bifreiðinni var ekið norður Breiðhöfða, en hinni suður Breiðhöfða og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka Bíldshöfða í austur. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.

Frá vettvangi á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar.