Frá vettvangi á Miklubraut.
9 Febrúar 2021 15:51

Í síðustu viku slösuðust sjö vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 31. janúar – 6. febrúar, en alls var tilkynnt um 32 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 31. janúar kl. 13.37 var bifreið ekið austur Vatnsendaveg og aftan á aðra í hringtorgi við Kóraveg, en ökumaður fremri bifreiðarinnar hafði numið staðar til að hleypa gangandi vegfaranda yfir merkta gangbraut sem þar er. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 2. febrúar kl. 17.24 var bifreið ekið á pilt á rafhlaupahjóli á gangbraut á mótum Laugavegar og Kringlumýrarbrautar. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið austur Laugaveg og beygði ökumaður hennar til hægri á gatnamótunum og hugðist síðan aka suður Kringlumýrarbraut, en rafhlaupahjólinu var hjólað til norðurs og inn á fyrrnefnda gangbraut. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 5. febrúar kl. 8.10 var bifreið ekið norður Sæbraut, að gatnamótunum við Skeiðarvog og Kleppsmýrarveg, og aftan á aðra, sem var kyrrstæð vegna umferðar fram undan. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 6. febrúar. Kl. 11.37 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Borgarholtsbrautar og Urðarbrautar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Borgarholtsbraut, en hinni norður Urðarbraut. Umferðarljós eru á gatnamótunum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en sá var jafnframt ekki talinn vera í ástandi til að aka bifreið. Kl. 11.51 varð tveggja bíla árekstur í hringtorgi á mótum Dalsmára og Fífuhvammsvegar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Dalsmára og inn í hringtorgið, en hinn vestur Fífuhvammsveg. Ökumaðurinn sem ók vestur Fífuhvammsveg fór rakleiðis af vettvangi, en bifreiðin fannst síðar við heimili hans. Tveir voru í hinni bifreiðinni og fóru þeir sjálfir á slysadeild. Og kl. 14.51 varð fjögurra bíla aftanákeyrsla í Ártúnsbrekkunni, en bílunum var öllum ekið vestur Vesturlandsveg/Miklubraut. Í aðdragandanum snögghemlaði ökumaður fremstu bifreiðinnar þegar fimmtu bifreiðinni var ekið inn á veginn af frárein frá Reykjanesbraut, en ökumaður þeirrar bifreiðar ók rakleiðis af vettvangi. Einn ökumanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.