Á vettvangi við Breiðahvarf/Vatnsendaveg.
3 Mars 2021 13:52

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. febrúar, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.

Miðvikudaginn 24. febrúar kl. 22.12 varð tveggja bíla árekstur við vegamót Vesturlandsvegar og Hvalfjarðarvegar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Vesturlandsveg, en hinni suður Hvalfjarðarveg og inn á vegamótin. Ökumaður síðartöldu bifreiðarinnar stöðvaði á vettvangi í stutta stund, en hélt síðan för sinni áleiðis áður en viðbragðsaðilar komu á vettvangi. Sami ökumaður fannst svo nokkru síðar og var þá handtekinn, grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur. Ökumaður og farþegi í fyrsttöldu bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 27. febrúar. Kl. 5.36 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni við hringtorg á mótum Breiðahvarfs og Vatnsendavegar, sem hafnaði á ljósastaur. Ökumaður, sem hafði ekki aldur til að aka bifreið, og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 21.50 var bifreið ekið austur Miklubraut, að Grensásvegi, og aftan á aðra kyrrstæða, en ökumaður hennar beið á rauðu ljósi og hugðist síðan aka Grensásveg í norður. Í aðdragandanum kvaðst hinn ökumaðurinn hafa verið að reyna að forðast árekstur við aðra bifreið, sem var rásandi á veginum. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.