Frá vettvangi á Reynisvatnsvegi.
22 Febrúar 2021 12:39

Í síðustu viku lést einn vegfarandi og níu slösuðust í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. febrúar, en alls var tilkynnt um 27 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 14. febrúar kl. 9.49 var bifreið ekið austur Miklubraut, áleiðis að Ártúnsbrekku, og aftan á aðra sem var ekið sömu leið. Tjónvaldur, sem er grunaður um nytjastuld, fór af vettvangi, en bifreið hans fannst síðar í nálægu hverfi. Farþegi í bifreiðinni sem var ekið á, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 15. febrúar kl. 13.55 var vörubifreið ekið á vinstri akrein austur Vesturlandsveg, á að- og frárein við Orkuna, þegar fólksbifreið var ekið út af planinu á bensínstöðinni og í veg fyrir vörubifreiðina. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 16. febrúar kl. 9.20 var bifreið ekið frá Bæjarlind og inn á Reykjanesbraut og á aðvífandi bifreið, sem var ekið Reykjanesbraut til norðurs á hægri akrein. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 17. febrúar varð banaslys í umferðinni, en sama dag var greint frá slysinu á lögregluvefnum; Karlmaður á áttræðisaldri lést í umferðarslysi á gatnamótum Kauptúns og Urriðaholtsstrætis í Garðabæ í dag. Varð maðurinn fyrir bifreið er hann gekk yfir götuna. Tilkynning um slysið barst lögreglu kl. 7.54. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.

Föstudaginn 19. febrúar kl. 22.22 var vespu ekið á ljósastaur við Tunguveg í Leirvogstungu. Ökumaðurinn, sem var ekki með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 20. febrúar. Kl. 10.40 var bifreið ekið austur Reynisvatnsveg og á aðra á móts við Kapellustíg. Í aðdragandanum hugðist ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar aka framúr, en ökumaður hinnar bifreiðarinnar, sem ók einnig í austurátt, tók vinstri beygju að malarplani sem þarna er. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 11.35 varð tveggja bíla árekstur á mótum Vesturlandsvegar og Brautarholtsvegar á Kjalarnesi. Annarri bifreiðinni var ekið suður Vesturlandsveg, en hinn norður Vesturlandsveg og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri inn á Brautarholtsveg. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.