Frá vettvangi á Vesturlandsvegi.
16 Mars 2021 11:36

Í síðustu viku slösuðust tólf vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. mars, en alls var tilkynnt um 25 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 7. mars. Kl. 10.54 missti ökumaður á leið austur Þingvallaveg, þar sem komið er inn Mosfellsdal, stjórn á bifreið sinni, sem fór yfir á öfugan vegarhelming og hafnaði á bifreið sem var ekið vestur Þingvallaveg. Mikil ísing var á vettvangi. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild. Í kjölfarið var þriðju bifreiðinni ekið utan vegar við vettvanginn þegar ökumaður hennar var að forðast að lenda í árekstri við áðurnefndar bifreiðar. Og kl. 17.04 rann mannlaus bifreið niður bratta brekku frá Furuási að leiksvæði við Brekkuás og hafnaði á barni sem var þar við leik. Barnið var flutt á slysadeild. Ökumaður bifreiðarinnar hafði skilið hana eftir í hlutlausum gír og gleymt að setja í handbremsu.

Mánudaginn 8. mars kl. 7.53 klemmdist kona á milli tveggja bifreiða á bifreiðastæði við Æsufell. Í aðdragandanum var önnur bifreiðin kyrrstæð, en hinni var verið að bakka út úr stæði. Konan var flutt á slysadeild.

Þriðjudaginn 9. mars kl. 13.21 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg, að hringtorgi við Korpúlfsstaðaveg, og aftan á aðra sem var ekið sömu leið. Ökumaður og farþegi úr fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 10. mars. Kl. 10.40 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg, á móts við bæinn Enni á Kjalarnesi, og aftan á aðra, sem var ekið sömu leið. Afar slæmt skyggni var á vettvangi. Ökumaður og farþegi úr fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.20 missti ökumaður, sem ók afrein frá Reykjanesbraut inn á Kauptún, stjórn á bifreið sinni, sem hafnaði utan vegar og á ljósastaur. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Laugardaginn 13. mars kl. 14.36 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg, á móts við söluturninn Póló, og aftan á aðra, sem kastaðist áfram á þriðju bifreiðina. Tvær fremri bifreiðarnar höfðu numið staðar vegna umferðar fram undan. Ökumaður miðju bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.