Frá vettvangi á Sæbraut.
25 Mars 2021 10:24

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. mars, en alls var tilkynnt um 27 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 14. mars kl. 13.21 var bifreið ekið vestur Sæbraut og aftan á aðra, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótunum við Frakkastíg. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var handtekinn á vettvangi, grunaður um ölvunarakstur, en hinn ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 18. mars. Kl. 17.59 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Suðurlandsbrautar, Grensásvegar og Engjavegjar. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinn ekið norður Grensásveg og inn á Engjaveg, en hinn austur Suðurlandsbraut að gatnamótunum þar sem ökumaðurinn tók vinstri beygju inn á Engjaveg. Ágreiningur er uppi um stöðu umferðarljósa. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 18.02 var ekið á hjólreiðamann á Bæjarbraut, móts við Skátafélagið Vífil. Bifreiðinni var ekið suður Bæjarbraut við Hrísmóa, en hjólreiðamaðurinn hjólaði þvert yfir götuna. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með hjálm, var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 19. mars kl. 11.43 missti ökumaður á leið suður Hafnarfjarðarveg, sunnan við Kópavogslæk, stjórn á bifreið sinni, sem fór utan í vegrið og hafnaði síðan annarri bifreið sem var ekið sömu leið. Sú bifreið hafnaði svo á vegriði sem aðskilur akstursáttir. Ökumaðurinn, sem missti stjórn á bifreið sinni, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 20. mars. Kl. 16.01 var bifreið ekið austur Reykjanesbraut, á móts við Kaplakrika, og aftan á aðra, sem við það kastaðist áfram á þá þriðju. Tveir fremri bílarnir höfðu numið staðar á rauðu ljósi. Ökumaður og farþegi í miðju bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.23 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Lyngáss. Annarri bifreiðinni var ekið suður Hafnarfjarðarveg, en hinni frá Lyngás og inn á gatnamótin og hugðist ökumaður hennar síðan aka Hafnarfjarðarveg til norðurs. Grunur er um að fyrrnefndi ökumaðurinn hafi ekið gegn rauðu ljósi. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.