Frá vettvangi í Síðumúla.
6 Apríl 2021 14:18

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. mars – 3. apríl, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 28. mars. Kl. 0.16 var bifreið ekið austur Miklubraut og beygt aðrein sem liggur að Reykjanesbraut í suður þar sem ökumaður missti stjórn á henni svo bifreiðin fór utan vegar yfir umferðareyju þvert yfir af rein frá Sæbraut inn á Miklubraut og hafnaði á tré. Hálka var á vettvangi. Ökumaður og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild. Og kl. 22.37 var bifreið ekið Rjúpnaveg að Baugatorgi þar sem að ökumaður missti stjórn á henni með þeim afleiðingum að bifreiðin hringsnérist og hafnaði á grjóthleðslu utan við torgið. Hálka var á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 29. mars kl. 15.56 var bifreið ekið norður (austur) Breiðholtsbraut að ljósastýrðum vegamótum Selásbrautar þar sem bifreiðinni var ekið aftan á bifreið fyrir framan, sem hafði stöðvað við rautt umferðarljós.  Ökumaður aftari bifreiðarinnar, sem var ekki með öryggisbelti spennt við aksturinn, var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 30. mars kl. 1.31 var bifreið ekið í austur frá Vesturlandsvegi eftir frárein inn á Rafstöðvarveg þar sem ökumaður missti stjórn á henni og valt bifreiðin í fráreininni utan vegar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um fíkniefnaakstur og réttindaleysi, var ekki með öryggisbelti spennt við akstur frekar en farþegi sem var í bifreiðinni.  Báðir voru fluttir á slysadeild og síðan í fangageymslu í þágu rannsóknar máls.

Miðvikudaginn 31. mars kl. 16.29 var bifreið ekið austur Nýbýlaveg að gatnamótum Þverbrekku og þar aftan á bifreið sem hafði stöðvað fyrir framan vegna umferðar og kastaðist sú bifreið síðan áfram þriðju bifreiðina þar fyrir framan. Ökumaðurinn sem sat undir stýri og ók aftan á hinar bifreiðarnar var í æfingaakstri með forráðamanni sínum. Einn ökumannanna og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 1. apríl kl. 16.54  var reiðhjóli hjólað eftir Borgavegi á móts við Kirkjugarða Reykjavíkur.  Að sögn hjólreiðamannsins hjólaði hann á stein á götunni, missti jafnvægið og féll í götuna. Hjóreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 2. apríl kl. 16.53 var bifreið ekið austur Krókavað þegar barn hljóp út á götuna og varð fyrir henni. Barnið lenti undir bifreiðinni, en aðrir vegfarendur lyftu bifreiðinni og náðu því undan henni áður en viðbragðsaðilar komu á vettvang. Barnið, sem var með hjálm, var flutt á slysadeild, en það var mun minna slasað en óttast var í fyrstu.

Laugardaginn 3. apríl kl. 11.16 var bifreið ekið vestur Síðumúla, en á móts við hús nr. 25 var henni ekið á ljósastaur. Ökumaðurinn, sem talið er að hafi fengið blóðsykurfall í aðdragandanum, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.