Frá vettvangi á Bíldshöfða.
20 Apríl 2021 12:02

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 11. – 17. apríl, en alls var tilkynnt um 31 umferðaróhapp í umdæminu.

Sunnudaginn 11. apríl kl. 14.25 var bifreið ekið austur Bíldshöfða og annarri bifreið var ekið frárein frá Vesturlandsvegi inn á Bíldshöfða, austan við N1, svo árekstur varð með bifreiðunum. Biðskylda er á vegamótunum fyrir umferð um fráreinina gagnvart umferð um Bíldshöfða. Ökumaður og farþegi úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 12. apríl kl. 19.39 var bifreið ekið suður Reykjahlíð, inn á vegamót Eskihlíðar, þegar rafhlaupahjóli var ekið vestur Eskihlíð og varð árekstur með þeim. Hjólreiðamaðurinn kastaðist upp á vélarhlíf bifreiðarinnar og hafnaði á framrúðu hennar svo hún brotnaði. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 13. apríl kl. 17.51 var bifreið ekið suður Kringlumýrarbraut, en þegar ökumaður ók yfir gatnamót Listabrautar ók hann utan í kantstein og misst stjórn á bifreiðinni svo hún lenti utan í tveimur öðrum bifreiðum, síðan utanvegar á vegrið og til baka aftur inn á veginn áður en hún stöðvaðist þversum á miðjum vegi. Af ummerkjum að dæma á vettvangi er ljóst að bifreiðinni hefur verið ekið langt umfram leyfðan hámarkshraða, sem er 60 km á þessum vegarkafla. Ökumenn bifreiðanna, sem lentu saman, voru allir fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 15. apríl. Kl. 15.27 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut, en ökumaður kvaðst hafa ekið inn á aðrein að Arnarnesvegi til þess að reyna að koma í veg fyrir árekstur við vörubifreið fyrir framan. Ökumaður vörubifreiðarinnar hafði hægt á ferð hennar og beygt í veg fyrir hann frá afreininni og aftur inn Reykjanesbraut. Ökumaður fyrstu bifreiðarinnar kvaðst hafa ekið aftan á eftirvang (hólhýsi) bifreiðar sem var stopp fyrir í aðreininni. Ökumaður með hjólhýsið í eftirdragi var við það að stöðva við hægri brún í aðreininni þar sem hann taldi að nefhjól hjólhýsisins hefði farið niður og væri að dragast eftir veginu þegar árekstur varð.  Ökumaður fyrstutöldu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.26 var bifreið ekið austur Stekkjarbakka að Hamarstekk, en ökumaður kvaðst hafa sé særða gæs í vegkanti þegar hann ók hjá og því ákveðið að draga veruleg úr hraða og taka u-beygju á veginum til þess að snúa við og kanna með gæsina. Bifreið sem á eftir kom var ekið aftan á vinstra afturhorn bifreiðarinnar þegar hún var nánast stöðvuð og ökumaður hennar að taka nefnda u-beygju. Að sögn ökumanns síðari bifreiðarinnar snögghemlaði ökumaður fyrri bifreiðinnar og tók u-beygju án þess að gefa stefnumerki. Ökumaður fyrri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild, en hann er grunaður um fíkniefnaakstur og var handtekinn eftir læknisskoðun. Ekki fer sögum af afdrifum gæsarinnar.

Föstudaginn 16. apríl kl. 9.17 var bifreið ekið vestur Breiðholtsbraut/Nýbýlaveg og beygt í vinstri beygju suður Dalveg á sama tíma og annarri bifreið var ekið austur Nýbýlaveg, inn á gatnamótin svo árekstur varð með bifreiðunum.  Gatnamótin eru ljósastýrð og er ágreiningur um stöðu umferðarljósanna þegar áreksturinn varð.  Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.