Frá vettvangi við Vesturlandsveg.
27 Apríl 2021 15:06

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 18. – 24. apríl, en alls var tilkynnt um 19 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 18. apríl. Kl. 2.55 var bifreið ekið suður Höfðabakka og beygt áleiðis vestur Streng þar sem ökumaður ók á umferðarljósavita.  Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild og síðan í fangageymslu. Og kl. 14.05 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg, en á móts við gömlu malargryfjurnar í Kollafirði við steyptan vegg „Flatus Lifir“, var bifreiðinni ekið aftan á bifreið fyrir framan, sem hafði verið stöðvuð snögglega og sveigt til hægri út í vegkant til þess að koma í veg fyrir ákeyrslu við þriðju bifreiðina þar fyrir framan. Í fremri bifreiðinni, sem ekið var aftan á, voru þrír farþegar og voru þeir allir fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 20. apríl. Kl. 11.54 var bifreið ekið austur Geirsgötu á vinstri rein og þar aftan á aðra bifreið á ljósatýrðum vegamótum Geirsgötu/Tryggvagötu/Suðurbugtar, en fremri bifreiðin kastaðist áfram á þá þriðju sem var þar fyrir framan. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.25 var bifreið ekið vestur Vífilstaðaveg, skömmu áður en komið er að Kirkjulundi, á sama tíma og hjóreiðmaður þveraði götuna á merktri gangbraut, sem jafnframt er upphækkuð hraðahindrun og varð árekstur við hjólreiðamanninn sem féll í götuna. Ökumaður bifreiðarinnar kvaðst hafa blindast af sólinni þar sem hún var mjög lágt á lofti. Hjólreiðarmaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 21. apríl kl. 22.36 var bifreið ekið Litlatún með fyrirhugaða aksturstefnu norður Hafnarfjarðarveg og þar aftan á bifreið sem ekið var sömu leið, en ökumaður hennar hafði stöðvað við vegamótin.  Biðskylda er fyrir Litlatún gagnvart umferð norður Hafnarfjarðarveg. Ökumaður og farþegi bifreiðarinnar, sem ekið var aftan á, voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.