Frá vettvangi á Miklubraut.
12 Apríl 2021 15:53

Í síðustu viku slösuðust þrír vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. apríl, en alls var tilkynnt um 18 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 4. apríl kl. 22.47 var bifreið ekið austur Miklubraut inn á afrein sem liggur suður Reykjanesbraut og þar á öryggisenda á vegriði, sem aðskilur akstursstefnur frá aðrein fyrir umferð af Sæbraut, austur Miklubraut.  Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 7. apríl. Kl. 8.33 var bifreið ekið vestur Vesturlandsveg, á móts við Korputorg, þar sem henni var ekið aftan á bifreið sem hafði stöðvað vegna umferðar fram undan.  Ökumaður bifreiðarinnar, sem ekið var aftan á, var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.38 var bifreið ekið vestur Sæbraut þar sem henni var ekið áleiðis í vinstri beygju suður Kringlmýrarbraut, þegar annarri bifreið var ekið austur Sæbraut, á vinstri akrein, inn á vegamót Kringlumýarbrautar og varð árekstur með bifreiðunum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.