Frárein frá Reykjanesbraut.
11 Maí 2021 16:06

Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. maí, en alls var tilkynnt um 36 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 2. maí kl. 17.10 var bifhjóli ekið norður frárein frá Reykjanesbraut, sem liggur austur Vesturlandsveg, og þar aftan á bifreið sem ekið var sömu leið fyrir framan og féll bifhjólamaðurinn í götuna.  Ökumaður bifreiðarinnar hafði hemlað snögglega vegna grágæsar sem var þar á göngu á miðjum vegi.  Ökumaður bifhjólsins, sem er talinn hafa handleggsbrotnað, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 3. maí kl. 12.46 hjólaði reiðhjólamaður suður Ásgarð að Bústaðavegi þar sem hann féll fram fyrir sig af hjólinu og í götuna. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild, en hann er grunaður um ölvunar- og fíkniefnaakstur.

Þriðjudaginn 4. maí kl. 17.10 var bifreið ekið austur Fellsmúla og beygt í hægri beygju áleiðis inn á bifreiðastæði við Hreyfil, Grensásvegi, í sömu mund og hjólreiðamaður hjólaði eftir gagnstéttinni austur Fellsmúla og varð árekstur með ökutækjunum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 5. maí kl. 12.34 var bifreið ekið austur Arnarnesveg inn í hringtorg á vegmótum Akrabrautar, Bæjarbrautar og Fífuhvammsvegar í innri hring og áfram áleiðis út úr torginu austur Arnarnesveg, en á sama tíma var annarri bifreið ekið sömu leið áleiðis út úr torginu á ytri hring og varð árekstur með bifreiðunum við Bæjarbraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 6. maí kl. 15.30 var reiðhjóli hjólað austur göngu- og hjólastíg norðan við Stekkjarbakka, þar sem stígurinn greinist á þrjá vegu, en þar var bifhjóli ekið á hjólreiðarmanninn svo hann féll á stíginn. Ökumaður bifhjólsins stöðvaði til þess að týna upp brak sem brotnaði af hjóli hans við áreksturinn og ók svo brott af vettvangi án þess að ræða við eða kanna með meiðsli hjá hjólreiðamanninum.  Hjólreiðamaðurinn, sem er talinn hafa handleggssbrotnað, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.