18 Maí 2021 11:38
Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 9. – 15. maí, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 9. maí kl. 17.12 var bifreið ekið austur Reynisvatnsveg, frá gatnamótum Þúsaldar/Víkurvegar, þar sem ökumaður hægir snögglega á bifreiðinni til þess að taka u-beygju við enda umferðareyju, en þar er yfirborðsmerking á vegi með óbrotinni hindrunarlínu. Bifreið sem á eftir kom var ekið aftan á bifreiðina og þriðja bifreiðin sem kom þar eftir var svo ekið aftan á miðbifreiðina. Ökumaður síðastnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 10.maí. Kl. 6.32 var strætisvagni ekið vestur Vesturlandsveg á hægri akrein, en þegar ökumaður ók undan Höfðabakkabrú varð hann skyndilega var við vinnuvél (skotbómulyftari), sem ekið var á sömu akrein fyrir framan hann, og snögghemlaði ökumaður vagnsins til þess að beygja yfir á vinstri akrein og afstýra árekstri við vinnuvélina. Í kjölfarið var öðrum strætisvagni ekið harkalega aftan á fremri vagninn. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar. Engir farþegar voru um borð. Og kl. 14.50 var bifreið ekið norður Mosaveg, inn á vegþrengingu (hraðahindrun), þegar léttu bifhjóli var ekið göngustíg sem þverar veginn á vegþreningunni og varð árekstur með ökutækjunum. Ökumaður bifhjólsins, sem var öryggishjálm, var flutur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 12. maí. Kl. 7.41 var bifreið ekið suður aðrein frá Reykjanesbraut, inn á brú/gatnamót Breiðholtsbrautar og Nýbýlavegar yfir Reykjanesbraut, þegar annari bifreið var ekið austur Nýbýlaveg inn á vegmótin og varð árekstur með bifreiðunum. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar kvaðst hafa verið blindaður af sól og því ekki séð stöðu umferðarljósanna þegar hann ók inn á gatnamótin. Ökumaður og farþegi úr hinni bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.58 var bifreið ekið vestur Kársnesbraut þar sem ökumaður reyndi að afstýra því að aka á kött, sem hljóp í veg fyrir bifreiðina að sögn ökumanns. Ökumaður missti stjórn á bifreiðiinni og ók hann á tvær kyrrstæðar og mannlausar bifreiðar, sem var lagt þar í almenn bifreiðastæði við veginn. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 14. maí. Kl. 14.39 var bifreið ekið frá bifreiðastæði við Ásvelli þegar reiðhjóli var hjólað frá frá N1 eftir Ásvöllum og lenti hjólreiðamaðurinn á bifreiðinni svo hann féll í götuna. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild af aðstandanda. Og kl. 22.41 féll maður af rafmagnshlaupahjóli á göngu- og hjólastíg við N1 í Fossvogi. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.