Frá vettvangi í Fellsmúla.
25 Maí 2021 16:41

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 16. – 22. maí, en alls var tilkynnt um 29 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 16. maí kl. 14.06 féll maður af reiðhjóli á Hafravatnsvegi. Í aðdragandum togaði maðurinn, sem var á leið niður brekku, óvart í ranga bremsu (framhjóla bremsu). Hann var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 18. maí kl. 13.34 var bifreið ekið norður Grensásveg, áleiðis í vinstri beygju vestur Fellsmúla, þegar annarri bifreið var ekið suður Grensásveg inn á gatnamótin og varð árekstur með bifreiðunum. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Miðvikudaginn 19. maí kl. 12.21 var bifreið ekið Fellsmúla að Grensásvegi þegar annarri bifreið var ekið í norður af bifreiðastæði frá húsi nr. 26 inn á Fellsmúla með ætlaða vinstri beygju vestur Fellsmúla og varð árekstur með bifreiðunum. Tvöföld óbrotin hindrunarlína er á miðlínu Fellsmúla á þessum stað. Báðir ökumennirnir leituðu á slysadeild í kjölfarið.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 20. maí. Kl. 10.08 var bifreið ekið í ytri hring FH-torgs við vegamót Bæjarhrauns og Flatahrauns, en við Bæjarhraun var annarri bifreið ekið við hlið hennar á innri akrein og áleiðis út úr torginu inn á Bæjarhraun.  Árekstur varð með bifreiðunum og missti annar ökumannanna þá stjórn á bifreið sinni svo hann ók áfram upp á hringtorgið og þar yfir umferðarmerki svo það brotnaði niður.  Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 16.32 var bifreið ekið vestur Ánanaust, á vinstri akrein að Grandatorgi við Hringbraut/Eiðsgranda, en í sömu mund var rafhlaupahjóli ekið þvert inn á Ánanaust í norður við hringtorgið og í framhlið bifreiðarinnar.  Hjólreiðamaðurinn féll yfir vélarhlif bifreiðarinnar og þaðan í götuna. Hann ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar á slysadeild. Gönguleiðin er merkt með yfirborðsmerkingu á vegi um gangbraut með tveimur óbrotnum línum þvert yfir akbrautina, en þar eru engin umferðarmerki. Og kl. 16.44 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg, á móts við Laufás, þar sem að ökumaður hennar stöðvaði snögglega vegna umferðar fyrir framan, en í sömu mund var bifreið fyrir aftan ekið á hana. Við áreksturinn kastaðist fyrri bifreiðin áfram og aftan á bifreið sem var kyrrstæð þar fyrir framan.  Ökumaður öftustu bifreiðarinnar og farþegi úr henni voru fluttir á slysadeild.

Föstudaginn 21. maí kl. 21.17 var þremur bifhjóli ekið norður Kringlumýrarbraut á miðrein að gatnamótum Listabrautar.  Einn ökumannanna missti þá stjórn á hjóli sínu þegar afturdekk læstist í hemlun og fór utan í annað hjólið af þremur svo að tveir ökumannanna féllu í götuna og runnu með hjólum sínum yfir gatnamótin. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild og annar kom sér þangað sjálfur.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 22. maí. Kl. 17.51 var bifreið ekið suður Grennsásveg í beygjuvasa vestur Miklubraut á eftir annarri bifreið og varð árekstur með bifreiðunum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.42 var tilkynnt um hjólreiðamann á rafhlaupahjóli sem hafði fallið af hjólinu og lægi slasaður á Birkimel við Guðbrandsgötu. Hjólreiðamaðurinn, sem var ölvaður, þverneitaði að fara á slysadeild þrátt fyrir fortölur.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.