10 Júní 2021 12:29
Í síðustu viku slösuðust fimm vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 30. maí – 5. júní, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 31. maí kl. 7.20 var bifreið ekið norður Gullinbrú að gatnamótum Fjallkonuvegar í hægribeygju austur Fjallkonuveg þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni svo hún fór á ljósastaur og áfram yfir umferðareyju sem afmarkar akbrautir austur/vestur. Þar endaði á bifreiðin á annarri bifreið sem ekið var vestur beygjurein á Fjallkonuvegi fyrir umferð suður Gullinbrú og kastaðist sú bifreið áfram og utan í strætisvagn sem ekið var við hliðina á hægri akrein. Ökumenn fólksbílanna voru fluttir á slysadeild.
Þriðjudaginn 1. júní kl. 16.05 varð minniháttar árekstur tveggja bifreiða á Hjallabraut á hringtorgi við Nettó. Ökumenn færðu bifreiðar sínar á bifreiðastæði við Nettó til að afgreiða málið, en fóru þá að rífast um hver ætti sök sem stigmagnaðist og endaði með því að annar ökumannanna hugðist fara af vettvangi. Hinn ökumaðurinn reyndi þá að hindra brotför hans með því að ganga fyrir aksturleið bifreiðarinnar en ökumaðurinn, sem stakk af frá vettvangi, ók að sögn vitna á hinn ökumanninn (gangandi vegfaranda) svo hann kastaðist á vélarhlíf bifreiðarinnar og féll í götuna. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 3. júní kl. 11.21 var vespu ekið á gangstétt yfir á bifreiðastæði við veitingastaðinn Subway Fjarðargötu þegar ökumaður missti stjórn á hjólinu svo hann féll í götuna ásamt farþega sem sat aftan á hjólinu. Ökumaðurinn var með öryggishjálm á höfði, en ekki farþeginn sem var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 4. júní kl. 13.32 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut við ljósastýrð gatnamót Hamrahlíðar og þar aftan á bifreið sem var kyrrstæð við rautt umferðarljós. Ökumaður fremri bifreiðarinnar fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.