Frá vettvangi á Grandavegi.
18 Júní 2021 11:36

Í síðustu viku slösuðust fjórir vegfarendur í fjórum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 6. – 12. júní, en alls var tilkynnt um 23 umferðaróhöpp í umdæminu.

Miðvikudaginn 9. júní kl. 23.40 var bifreið ekið vestur Bankastræti og beygt suður Lækjargötu þar sem ökumaður ók á steinstólpa sem afmarkar/ver gangstétt frá akbraut. Vitni tilkynntu um áreksturinn, en bifreiðinni var ekið áfram suður Lækjargötu og inn á Hringbraut í austur þar sem henni var ekið aftan á bifreið, sem kyrrstæð á rauðu ljósi við gatnamót Nauthólsvegar. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.  Ökumaður bifreiðarinnar, sem var ekið aftan á, er einnig grunaður um fíkniefnaakstur.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 11. júní. Kl. 17.45 var bifreið ekið frá Eiðsgranda austur Grandaveg þar sem ökumaður missti stjórn á bifreiðinni, sem fór á móti einstefnu og utan í þrjár kyrrstæðar og mannslausar bifreiðar uns hún valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.02 var bifreið ekið vestur Hverfisgötu við Smiðjustíg og á gangandi vegfaranda, sem var á leið yfir götuna. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 12. júní kl. 15.23 var tilkynnt um slys á keppnisæfingu á mótorkrossbrautinni Tungumelum. Torfæruskráð bifhjól fór þar út af braut þegar ökumaður missti stjórn á því og hafnaði á tímaverði sem stóð utan við braut. Tímavörðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.