Frá vettvangi á Höfðabakkabrú.
22 Júní 2021 10:10

Í síðustu viku slösuðust þrír vegfarendur í þremur umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 13. – 19. júní, en alls var tilkynnt um 31 umferðaróhapp í umdæminu.

Þriðjudaginn 15. júní kl. 21.01 var bifreið ekið austur afrein frá Vesturlandsvegi inn á gatnamót á Höfðabakkabrú, sem liggur yfir Vesturlandsveg, með fyrirhugaða aksturstefnu norður Höfðabakka þegar annarri bifreið var ekið suður Höfðabakka inn á gatnamótinn svo árekstur varð með bifreiðunum. Slökkt var á umferðarstýringu umferðarljósa fyrir gatnamótin þegar slysið varð. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 16. júní kl. 14.25 var bifreið ekið frá bifreiðastæði við Skúlagötu 40 þegar rafhlaupahjóli var ekið eftir gangstétt, sem þar er, og í framanverða hlið bifreiðarinnar. Hjólreiðamaðurinn, sem féll yfir vélarhlíf bifreiðinnar og síðan í götuna, var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 18. júní kl. 17.59 var bifreið ekið suður Hafnarfjarðarveg á hægri akrein með tengdan eftirvagn, en á móts við Kópavogslæk missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni. Í aðdragandanum fór eftirvagninn að sveiflast til á veginum og valt hann og losnaði frá tengibúnaði bifreiðarinnar. Eftirvagninn rann síðan eftir götunni utan í vinstrihlið bifreiðarinnar og þaðan utan í vegrið sem skilur að akstursáttir. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.