1 Júlí 2021 09:51

Í síðustu viku slösuðust átta vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. júní, en alls var tilkynnt um 32 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 20. júní kl. 19.33 var bifreið ekið vestur Miklubraut, á hægri akrein í átt að Lönguhlíð, og þar aftan á bifreið sem var ekið hægt vegna umferðar fyrir framan. Ökumaður og farþegi aftari bifreiðarinnar voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 21. júní kl. 15.11 var bifreið ekið frá bifreiðastæði inn á Gullengi frá húsum nr. 7-11 og á vespu sem var ekið eftir gangstétt. Ökumaður bifreiðarinnar kvaðst hafa litið til hægri og vinstri áður en hann ók af stað. Þegar hann var að fara að taka af stað kom vespa frá hægri sem hann kvaðst ekki hafa séð og ók beint í veg fyrir bifreiðina svo árekstur varð. Ökumaður vespunnar, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild af aðstandanda.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 22. júní. Kl. 11.59 var bifreið ekið austur Suðurlandsbraut og út úr hringtorgi norður Skeiðarvog, inn á hraðahindrun sem er göngu- og hjólaleið sem þverar Skeiðarvog, þegar hjólreiðamaður ók rafmagnshlaupahjóli austur hjólastíg inn á gangbrautina svo árekstur varð. Hjólreiðamaðurinn ætlaði sjálfur að leita á slysadeild. Og kl. 17.03 var bifreið ekið suður Klapparstíg, inn á vegmót göngugötu Laugavegar, þegar rafhlaupahjóli var ekið vestur göngugötuna inn á Klapparstíg og varð árekstur með ökutækjunum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 23. júní kl. 15.20 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut við gatnamót Fjarðarhrauns og þar aftan á bifreið sem var kyrrstæð fyrir framan en sú bifreið kastaðist áfram og aftan á þriðju bifreiðina. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 25. júní kl. 12.57 var bifreið ekið frárein frá Hringbraut inn á Bústaðaveg í suður/austur og á vespu, sem var ekið eftir gangstíg við Bústaðaveg í norður frá Hlíðarenda inn á gatnamótin. Ökumaður bifreiðarinnar kvaðst hafa verið að taka af stað á grænu umferðarljósi þegar vespunni var ekið á framanverða hægri hlið bifreiðarinnar. Ökumaður vespunnar og farþegi á henni voru fluttir á slysadeild, en hvorugur var með öryggishjálm.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.